Aðrir ljóskóðar
Hvað eru
aðrir ljóskóðar?
Ljóskóðar sem falla undir þennan flokk eru sértækir að því leiti að virkni þeirra beinist að einhverju ákveðnu viðfangisefni. Sumir hafa það hlutverk bæta heiminn með því að styðja við breytingar innan staðnaðra kerfa og hreinsa í burtu gamla og þétta orku. Aðrir eru ljóskóðar sérstakrar orku eins og t.d. mismunandi reikiorku. Meðferðaraðilum er velkomið að hafa samband við okkur til þess að fá sértæka ljóskóða fyrir heildrænar meðferðir.
Hrabbý hefur þegar miðlað þó nokkrum slíkum kóðum en við höfum ekki ennþá fengið upplýsingar um virkni og tilgang þeirra allra. Meginástæða þess er sú að allt hefur sinn tíma og það er mikilvægt að kóðarnir séu notaðir rétt til að tryggja hámarks virkni.
Hér að neðan eru nokkur dæmi um slíka kóða:
Engla Reiki
Ljóskóði fyrir menntakerfi
Tilgangur þessa ljóskóða er að brjóta niður gömul og úrelt menntakerfi. Kerfi byggð á því viðhorfi að einungis sé ein leið til að teljast gáfaður, samþykktur og njóta velgengni. Kerfi sem ríghalda í gamlan, ritaðan sannleika sem hinn eina rétta og gefa ekki rými fyrir nýjan/annan sannleika byggðan á innsæi og túlkun. Innan núverandi menntakerfa upplifir stór hluti nemenda sig ekki verðuga eða gáfaða einungis vegna þess að þeir túlka og upplifa heiminn á annan hátt en kerfið segir til um að sé rétt. Þeirra raunveruleiki er því byggður á sannleika sem samkvæmt kerfinu er ekki til. Okkur dreymir um menntakerfi sem leyfir öllum að vera eins og þeir eru og tekur tillit til hversu ólík við getum verið sem einstaklingar. Kerfi sem hefur það að markmiði að efla okkur í standa í styrknum okkar, rækta hæfileika okkar og fylgja hjartanu í öllu sem við gerum. Kerfi þar sem ljósvinna/orkuvinna og listir eru líka samþykktir hæfileikar og stoðir sem hægt er að byggja lífsviðurværi sitt á með öllum möguleikum á velgengni og auðæfum (bæði veraldlegum og andlegum) alveg eins og vísindi, landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og aðrar „samþykktar“ atvinnugreinar. Kerfi þar sem við getum raunverulega einbeitt okkur að tilgangi sálar okkar hér á Jörðinni, bæði í þessu lífi og í gegnum allar okkar fyrri lífstíðir hvar sem er í alheiminum. Líf byggt á styrkleikum okkar, þar sem hjartað ræður för hlýtur alltaf að koma okkur á réttan stað. Ímyndaðu þér hversu frábært væri að alast upp í slíku menntakerfi!
Stjórnmál og önnur stjórnkerfi
Forysta er fallegt orð en hvað þýðir að vera góður leiðtogi? Að sýna góða forystu? Myndir þú segja að leiðtogar þinnar þjóðar eða sveitarfélags væru góðir? Vinna þeir frá hjartanu? Reyna þeir að styðja við meirihluta íbúa? Eru þeir sanngjarnir, meðvitaðir um gott siðferði og taka tillit til Jarðarinnar sem við búum á? Eru stórar fyrirtækjasamsteypur sanngjarnar og meðvitaðar um gott siðferði? Koma þessi fyrirtæki yfirleitt vel fram við fólk og taka ákvarðanir sem styðja við áframhaldandi líf okkar hér á Jörðinni?
Ef við sem mannkyn ætlum að lifa af vistina hér á Jörðinni þarf að gera risastórar breytingar á lifnaðarháttum okkar, hvernig við búum, borðum, komum fram við Jörðina og hvort annað. Því þarf heimurinn á því að halda að ólíkir einstaklingar um allan heim komi saman innan ólíkra samfélaga og vinni að breytingum. Við þurfum á hugsjónafólki að halda, vísindafólki með opna huga og hjörtu, nýjum leiðtogum og nýjum brautryðjendum sem láta hlutina gerast. Við þurfum fólk sem er tilbúið að taka áhættu, hugsa með hjartanu. Fólk sem er tilbúið að skapa framtíð sem er sanngjörn fyrir alla, allar lifandi verur á Jörðinni.
Sýn okkar felur í sér að fólk komi saman með opin hjörtu og opinn huga til að skapa. Fólk sem er tilbúið að horfa á sjálft sig og gera þær breytingar sem það sjálft þarf að gera. Fólk sem er tilbúið að setja sameiginlega hagsmuni ofar sínum eigin, er tilbúið til að vinna með alla þá ólíku orku sem er allt í kringum okkur alls staðar í alheiminum. Við höfum aðgengi að svo miklum stuðningi og hjálp allt í kringum okkur sem við verðum að nýta okkur. Við þurfum að opna á alla viskuna sem við búum yfir. Mörg okkar eiga að baki fjölmargar jarðvistir og hafa því gengið Jörðina í þúsundir ára, tekið þátt í fornum menningarsamfélögum og jafnvel verið hluti af samfélögum á öðrum plánetum. Við þurfum að ná í þessa visku, alla þekkinguna sem sálirnar hafa viðað að sér í gegnum öll þessi líf á ólíkum stöðum og nýta okkur hana til að halda áfram saman.