Starcodes Teymið

Þurý er leiðsögukona á námskeiðinu Þín persónulega umbreyting

Þurý Gísla

Ég hef verið að vinna í sjálfri mér að einhverju marki í 6-8 ár og hefur eitt leitt af öðru. Í hvert skipti sem ég var leidd á nýjar brautir í minni andlegu vegferð, var ekkert annað að gera en að hrista upp í sjálfinu, fara út úr þægindarammanum og stökkva á vagninn. 

Ég hef fundið neistann minn, tilganginn minn og sjálfa mig með því að treysta á Alheiminn, að hann komi til mín með það sem mér er ætlað í þessari jarðvist, lært að sleppa tökunum og vera opin fyrir því sem kemur til mín. 

Ég brenn fyrir því að fá að fylgjast með öðrum feta sinn veg í átt að sínum sannleika og það hef ég svo sannarlega fengið að sjá á minni vegferð með Starcodes Academy bæði sem þátttakandi í námskeiðum og svo leiðsögukona í námskeiðinu Þín persónulega umbreyting.  

Að auki rek ég mitt eigið fyrirtæki Líf Óm, sem er með meðferðir í lífsveiflutækni, ásamt því að bjóða upp á Engla Reiki heilun og selja jarðtengingavörur. Þetta er mín nálgun í dag til að vinna með heildrænar leiðir með áherslu á að hjálpa fólki að viðhalda og bæta heilsu sína á líkama og sál. 

Ég er afar þakklát manneskja fyrir mína vegferð, ég er að læra alla daga og uppfæra sjálfa mig, því lærdómurinn er lífæðin okkar og fylgir okkur svo lengi sem við lifum.  Mér efst í huga þakklæti til minna leiðbeinenda, samferðafólks og skjólstæðinga fyrir hvatningu, traust og kærleika sem ég hef fundið fyrir minni vegferð. 

 Finndu þína leið og stökktu á vagninn þinn!  

Begga er samfélagsstjóri Hjartaakursins

Bergljót (Begga)

Ég heiti Bergljót Bergsdóttir yfirleitt kölluð Begga. Mjög ung eða í kringum 10 ára aldur ákvað ég að ég ætlaði að verða kennari. Ég hélt mig við þessa ákvörðun þrátt fyrir mótmæli í fjölskyldunni. Hef ég aldrei séð eftir þeirri ákvörðun minni og vann sem kennari á hinum ýmsu aldursstigum í yfir 40 ár. Ég naut þess að vinna með börnum og fannst alltaf gaman í vinnunni.

Ég hef verið upptekin af andlegum málefnum og hef lesið mikið og var sjálfsrækt þar líka ofarlega á listanum frá því að ég var ung. Árið 2003 ákvað ég að losa um ræturnar hér á Íslandi og flutti mig og mitt hafurtask til Noregs. Þar fékk ég vinnu á leikskóla og vann því með yngstu kynslóðina sem gaf mér mikið, að sjá þau þroskast og taka sín fyrstu skref inn í lífið var ómetanlegt. Þá ákvað ég líka að fara í tveggja ára háskólanám og útskrifaðist sem Gestalt þerapisti árið 2008. Í því námi fór fram mikil sjálfsvinna ásamt því að vinna með fólk. Á þessum tíma gekk ýmislegt á í íslensku þjóðfélagi sem varð til þess að ég lengdi veru mína í Noregi um átta ár. Komin heim til Íslands árið 2016 fór ég síðan að kenna í grunnskóla aftur.

Á Covid árunum þegar allt var meira og minna lokað sótti ég ýmis námskeið á netinu. t.d Engla og orkusteina námskeið Kyle Grey og var í englaskóla Claire Stone í tvö ár, ásamt því að vera áskrifandi á síðum Rebeccu Campbell.

Fljótlega eftir heimkomu kynnist ég síðan Ölmu í gegnum hugleiðslur í náttúrunni og þá var eins og nýr heimur opnaðist fyrir mér. Ég fann að þarna var eitthvað sem hafði blundað í mér og þurfti að hlúa að og næra. Þarna fann ég hversu mikil náttúruvera ég er og hversu sterk tengsl mín við aðrar náttúruverur er sterk .

Og nú fór boltinn að rúlla því 2021 mér var boðið að taka þátt í prufuhópi þeirra vinkvennanna Ölmu og Hrabbýar fyrir námskeiðið Þín persónulega umbreyting. Yndislegur hópur kom þarna saman til að kynnast sjálfum sér og öðrum betur. Eftir það sótti ég námskeiðin Engl Reiki 1 og 2 og síðar 3 og 4.

Síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt og er hér ég komin, farin að vinna í teymi Starcodes skólans sem samfélagsstjóri Hjartaakursins. Mér finnst ég vera farin að vinna í mínum eigin Hogwartskóla og hlakka mikið til næstu ára í því nærandi og gefandi umhverfi.

 

Oddfreyja

Ég ólst upp í sveit, hef starfað margvísleg störf um ævina og staldraði lengst við í 18 ár, en ég var alltaf leitandi að einhverju sem hjálpar fólki að líða betur og vaxa andlega. Í raun má segja að ég hafi viljað veita öðrum það sem mig vantaði sjálfa, sem var heilun. 

Ég hef því lært ýmislegt sem hjálpar mér að gera einmitt það eins og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, reiki, dáleiðslu, fyrrilífa dáleiðslu og Engla reiki. Síðast en ekki síst fór ég í Starcodes Academy skólann á námskeiðið Þín persónulega umbreyting og fann fljótlega hvað það gerði mikið fyrir mig og bætti mína vinnu í heilun og dáleiðslu mikið.

Ég var því auðmjúk, þakklát og ótrúlega spennt þegar mér var boðið starf hjá Starcodes Academy og það var aldrei um annað að ræða en að segja já við því, en innan skólans sé ég m.a. um heilun fyrir nemendur á námskeiðunum Þín persónulega umbreyting og Lifðu þinn tilgang ásamt því að vinna í bókhaldi. Það er ástæðan fyrir því að ég er hér og hlakka til að fá að vaxa á nýjum vinnustað með frábærum samstarfskonum sem stefna allar að því að gera heiminn að minnsta kosti aðeins betri stað.

Oddfreyja er heilari á námskeiðum skólans auk þess að sjá um bókhald

Sonja Arnars

Ég er yin yoga nidra djúpslökunarkennari, Engla Reiki meistari,  svæða-og viðbragðsfræðingur og einkaþjálfari. Ásamt þessu námi hef ég setið allskonar námskeið í heilun, reiki og fræðslu.

Andleg og líkamleg málefni hafa lengi fylgt mér og ekki síður vegna persónulegrar reynslu af miklum áföllum í lífinu sem einnig varða líkamlega heilsu mína til áraraða og djúpa kulnun árið 2015.

Ásamt því að kenna Engla Reiki við Starcodes skólans held ég úti námskeiðum í yin yoga nidra slökun sem vinna djúpt inn á við. Námskeiðin innihalda sjálfsstyrkingu andlega og líkamlega sem hafa fengið afar góðar viðtökur síðustu 3 árin og reynst fólki sem það sækir afar vel.

Þeim samhliða vinn ég með heildræna svæðameðferð og Engla Reiki heilunina. Hvoru tveggja afar heilandi meðferðir sem vinna einnig djúpt inn á við í líkama og sál. 

Ég fann minn stað í heilun þegar ég kynntist Engla Reikinu og ég elska að vinna í þessari fallegu orku. Hún þroskaði mig enn meira persónulega og það er ótrúlega fallegt að sjá áhrif þessarar heilunar á fólk. 

Ég er staðsett við Hveragerði, býð upp á mínar meðferðir þar og býð ykkur hjartanlega velkomin til mín.

Ásamt ofantöldu er ég eiginkona, móðir, stjúpa og amma! Og það er partur af mínum griðarstað.

Sonja kennir Engla Reiki