Hjarta Skotlands

Upplifunarferð fyrir hjarta og sál

Skotland

Finnur þú tengingu við Skotland?

Kallar hjarta þitt á frekari tengingu við Skotland? Langar þig að upplifa náttúru og orku landsins á einstakan hátt?

Viltu heimsækja Hálöndin með frábærum hópi þar sem kafað er í tengingu þína við landið? Þar sem við upplifum náttúruna og tengjum við hana daglega í heila viku?

Þá er ferðin Hjarta Skotlands fyrir þig!

Tilgangur ferðarinnar er að tengja við náttúru svæðisins, náttúruverur og njóta þeirrar orku sem Skotland hefur upp á að bjóða. Um leið nærum við okkur og njótum, skoðum okkur sjálf og tengingar okkar við þetta einstaka land. Við munum dvelja í Hálöndunum og heimsækja mismunandi staði, fjöll, firði, dali, heiðar og vötn.

Alma og Hrabbý hafa lengi fundið sterka tengingu við skosku Hálöndin og njóta þess innilega að heimsækja þau. Þær hafa upplifað mörg líf í Hálöndunum og finnst þær komnar heim þegar þangað er komið. Þær stöllur ákváðu að bjóða öðrum að skoða sínar tengingar við landið og njóta þess að heimsækja þá staði sem helst hafa kallað á þær í fyrri ferðum.

Skotland
Skotland
Skotland
Skotland

Ferðalagið hefst í Glasgow 4. júní þar sem hópurinn verður sóttur á flugvöll eða lestarstöð.* Þaðan verður haldið beint í Hálöndin og Hjarta Skotlands heimsótt á leiðinni. Fyrstu fimm næturnar verður dvalið á notalegu hóteli við ströndina í Nairn.

Skipulögð dagskrá er alla dagana en meðal þess sem boðið verður upp á meðan dvalið er í Nairn eru heimsókn til andlega þorpsins Findhorn, athöfn með skoskum shaman, jurtatýnsla og gerð smyrslis ásamt heimsóknum í steinahringi og kastala.

Á hverjum stað leggjum við áherslu á að tengja við landið og staðinn sjálfan, við skoðum jafnvel fyrri líf okkar og tengjum við forfeður og mæður en tengingar okkar geta verið afar ólíkar milli staða og einstaklinga.

Eftir dvölina í Nairn færum við okkur nær Loch Ness og gistum í tvær nætur nálægt bænum Fort Augustus. Þá daga heimsækir hópurinn dásamlegar náttúruperlur þar sem við m.a. tengjumst Nessie (Loch Ness verunni) og verjum degi djúpt inn í fallegu friðlandi þar sem margt er að upplifa.

Hrabbý og Alma leggja áherslu á að fara hægt yfir, njóta og upplifa. Hvert og eitt fær tækifæri til að skoða sinn ásetning í byrjun ferðar og gefinn er tími til endurlits. Í ferðinni munum við tengja við vötn, fjöll, skóga, heiðar og haf, náttúruverur og okkar fyrri upplifun af svæðinu.

Praktísk atriði

Ferðin er seld af TRIPorganiser Scotland Ltd. sem er lítil fjölskyldurekin ferðaskrifstofa staðsett í Edinborg. Alma og Hrabbý verða með hópnum allan tímann og halda utan um daglega dagskrá. Gert er ráð fyrir að allir þátttakendur taki þátt í dagskrá ferðarinnar. Það hentar því ekki að taka með maka/vin sem ætlar sér að gera eitthvað annað. Allir þátttakendur þurfa að vera vel göngufærir. 

Athugið að lágmarksfjöldi í ferðina eru 14 og hámarksfjöldi eru 18 þátttakendur. Það borgar sig því að tryggja sér sæti sem allra fyrst! 

Verð

Heildarverð eru 1.765 pund (GBP) eða um 304.000 kr. á gengi dagsins (20.10.2023). Athugið að þar sem ferðin er keypt í gegnum skoska ferðaskrifstofu geta orðið breytingar á verði háð gengi ef valið er að ganga frá greiðslum yfir lengri tíma.

Íslenskar upphæðir miðast við gengi 21.10.2023 og eru háðar gengisbreytingum. Verðið miðast við gistingu í tveggja manna herbergi, fyrir eins manns herbergi leggst álag ofan á. 

Innifalið í verðinu er:

  • Gisting í tveggja manna herbergi og morgunverður alla dagana
  • Hádegisverður eða nesti alla dagana nema einn (Dagur 5)
  • Þrír skipulagðir kvöldverðir (Dagar 1, 2 og 7)
  • Allar rútuferðir (til og frá flugvelli í Glasgow ef ferðast er innan skipulagðrar leiðarlýsingar* + allar skoðunarferðir)
  • Öll skipulögð afþreying í leiðarlýsingu (aðgangseyrir, námskeiðsgjöld, efniskostnaður o.s.frv.)
  • Fjölbreyttar hugleiðslur og verkefni
  • Leiddar samtengingar við magnaða orku Skotlands
  • Íslensk leiðsögn (Alma og Hrabbý) alla ferðina

Hvað er ekki innifalið í verðinu? 

  • Ferðir til og frá flugvelli á Íslandi
  • Flug frá Keflavík til Glasgow
  • Kvöldverður í 4 skipti (Dagar 3, 4, 5 og 6)
  • Hádegisverður á Degi 5

Flug FI430 fer frá Keflavík þann 4. júní kl. 10.15 (lendir 13:30 í Glasgow) og heimflug FI431 kl. 14.25 þann 11. júní. Easy Jet flýgur einnig beint til Edinborgar á þessum tíma. 

* Boðið er að sækja þá sem fara á eigin vegum á aðallestarstöð Glasgow (Glasgow Central Station) áður en hópurinn er sóttur á Glasgow flugvöll.

Skráningu í ferðina í formlega lokið en það er velkomið að slást í hópinn ef ennþá er laust í flug og gistingu. Ef þú hefur áhuga skaltu hafa samband við okkur á tölvupóstfangið info@starcodesacademy.com .

 

Skotland
Skotland