Þín persónulega umbreyting

Algengar spurningar

Þín persónulega umbreyting

algengar spurningar

Þín persónulega umbreyting – Algengar spurningar

Hvernig fer kennslan fram? 

Kennslan er afar fjölbreytt en hún samanstendur af eftirfarandi þáttum:

  • 9 staðlotur: tvær helgar utanbæjar, þrisvar er hist á föstudegi og laugardegi og fjórum sinnum á laugardegi
  • 9 Zoom fundir
  • Hugleiðslur, verkefni og fleira
  • Einstaklingstímar eru heilun og leiðsagnartímar 

Athugið að skyldumæting er á allar staðlotur og á Zoom fundi.

Hvað er námskeiðið langt? 

Námið er 9 mánuðir, frá september til og með maí. Hópurinn hittist mánaðarlega í staðlotu og á Zoom einu sinni í mánuði. Auk þess eru sex einstaklingstímar.

Þarf ég að hafa einhvern bakgrunn / kunna eitthvað til að geta tekið þátt?

Ekki er gerð krafa um ákveðna þekkingu en við mælum með að þátttakendur séu komnir að einhverju leiti af stað í sinni sjálfsvinnu og hafi einhverja reynslu af hugleiðslu. Við styðjum þátttakendur með undirbúningi áður en námið hefst. Nauðsynlegt er að þátttakendur séu tilbúnir til að skoða sig á heiðarlegan hátt. 

Hvað eru orkustöðvarnar tólf?

Við vinnum með tólf orkustöðvar fimmtu víddarinnar á námskeiðinu, þessar hefðbundnu sjö auk jarðarstjörnu, naflastöðvar, orsakastöðvar, sálarstjörnu og stjörnuhliðs. Fjöldi fólks hefur skrifað um mismunandi orkustöðvar og ekki er sama túlkun á staðsetningu eða virkni þeirra en við vinnum með þær upplýsingar sem til okkar hafa komið í miðlunum. Á framhaldsnámskeiðinu Lifðu þinn tilgang bætast við fimm orkustöðvar. 

Hvað gengur námið út á?

Tilgangur námsins er að kafa djúpt inn í okkur sjálf og skoða hvar okkar áskoranir og hindranir liggja, og hvernig er hægt að ryðja þeim úr vegi. Við skoðum til dæmis mynstur, samskipti og annað sem snýr að daglega lífinu en einnig skoðum við draumana okkar og hvernig við færumst nær þeim.

Af hverju er námið svo langt?

Það tekur tíma að rýna sjálfan sig, uppgötva nýja og gamla hluti sem við þurfum ekki á að halda, losa um og svo festa í sessi nýja þætti sem við viljum fá inn í lífið. Því þurfum við meðgöngutíma til að fara í gegnum þessa vinnu og um leið erum við að gefa okkur rými til að leyfa raunverulegri umbreytingu að eiga sér stað.

Þarf ég að kunna eitthvað í andlegum málum?

Nei það er ekki gerð krafa um það en hins vegar vinnum við með ljósverum (englum, drekum, meisturum og fleirum) svo nauðsynlegt er að vera til í þá vinnu með opið hjarta og huga. 

Hvar fer kennsla fram og hvað gerum við?

Staðloturnar fara fram einu sinni í mánuði á höfuðborgarsvæðinu en fyrsta helgin hefur verið í klukkustundar fjarlægð frá höfuðborginni. Hægt er að velja hvort heilunartímar og persónulegir leiðsagnartímar fari fram á vefnum eða á staðnum. Zoom fundir á milli staðlota eru á vefnum.

Hver staðlota inniheldur stund þar sem við förum í gegnum fræðslu og hugleiðslu en seinni hluti dagsins getur verið skriflegt verkefni, lengri hugleiðsla þar sem kafað er í ýmsa þætti, tónheilun, sköpunarstund, tenging við náttúruna, vinna með hópnum og fleira. Vinnan er fjölbreytt enda snertir hún á fjölda þátta í okkar lífi frá upphafi þessarar jarðvistar en við veltum einnig fyrir okkur hvað er framundan.

Stór hluti heimavinnunar eru hugleiðslur og skrif þeim tengd.

Er þetta nám fyrir alla og er aldurstakmark?

Námið er fyrir öll þau sem tilbúin eru að skoða sig á heiðarlegan hátt og eru tilbúin til að kafa djúpt til að umbreyta sínu lífi. Því fylgir að vera til í fylgja hjartanu og innsæinu að námi loknu. Það er ekki aldurstakmark í námið en fyrri þátttakendur hafa verið frá 36-78 ára.

Þarf ég að hafa stundað hugleiðslu?

Það er gott að þekkja til hugleiðslu og hafa prófað að hugleiða því hugleiðsla er stór hluti af náminu. Við notum hugleiðslurnar til að kafa djúpt inn á við enda er hugleiðsluástandið góð leið til þess að skoða það sem okkur er ekki endilega ljóst í daglegu amstri.

Hver er að kenna þetta nám og er sami kennarinn að kenna allt námið?

Alma og Hrabbý, stofnendur Starcodes skólans munu fylgja hópunum í gegnum námið ásamt tveimur öðrum kennurum sem hafa lokið námskeiðinu. Það fylgja alltaf tveir kennarar hverjum hópi í gegnum staðloturnar og Zoom fundina.

Er mikil heimavinna?

Við gerum ráð fyrir um það bil 400 klukkustundum í heimavinnu. Stór hluti heimavinnunnar er hugleiðsla en einnig eru nokkur skrifleg verkefni ásamt því að minni hópar hittast allavega mánaðarlega. Við erum að vinna að því að umbreyta lífi okkar og til þess þarf að leggja vinnu í okkur sjálf.

Þarf ég að vera með einhverja sérstaka reynslu til að taka þátt í námskeiði hjá ykkur?

Nei þess þarf ekki en gott er að vera kominn af stað í sjálfsvinnunni og hafa einhverja reynslu af hugleiðslu. Opið hjarta og opinn hugur er einnig nauðsynlegt fyrir þá sem hafa ekki reynslu af að vinna með ljósverum eins og englum.

Hvernig hefur Þín persónulega umbreyting áhrif á líf mitt? 

Áhrifin eru eins mismunandi og þátttakendur eru margir enda er hver og einn á sínu persónulega ferðalagi með ólíkar áskoranir og hindranir að vinna í gegnum. Gott er að lesa umsagnir þeirra sem hafa farið í gegnum námið til að sjá hversu fjölbreytt áhrif námið hefur haft á þeirra líf. Við erum öll stödd á mismunandi stað í okkar sjálfsvinnu og tökum því út úr náminu það sem við erum tilbúin til hverju sinni en námsefnið styður þig hvar sem þú ert á þinni leið. Þú hefur svo aðgang að námsefninu eftir að náminu lýkur og getur nýtt það áfram í þinni vinnu.

Hverju má ég búast við meðan og eftir að náminu lýkur?

Þú mátt búast við því að:

  • upplifa allan tilfinningaskalann í gegnum vinnuna
  • uppgötva hluti um þig sem þú vissir ekki áður
  • taka í sátt þætti hjá þér og í þínu lífi sem þér líkaði mögulega ekki við áður
  • styrkja mörkin þín gagnvart sjálfri þér og öðrum
  • eiga betri samskipti
  • finna draumana þína og leyfa þér að eiga drauma 
  • finna meiri sátt, aukna gleði og meira öryggi
  • setja þig í fyrsta sæti
  • finna meiri sjálfsvirðingu, sjálfsást og hafa skýrari sýn á eigin þarfir

Hvernig nýtist námið mér í framhaldinu?

Við lok námsins hefur þú unnið í gegnum fjölda þátta í þínu lífi sem styðja þig í að lifa út frá þínu hjarta. Það fer allt eftir því hverju þú ert að sækjast eftir þegar þú kemur í námið hvernig það nýtist eftir það enda hvert og eitt okkar á ólíkri vegferð.