Starcodes Teymið

Bergljót (Begga)

Ég heiti Bergljót Bergsdóttir yfirleitt kölluð Begga. Mjög ung eða í kringum 10 ára aldur ákvað ég að ég ætlaði að verða kennari. Ég hélt mig við þessa ákvörðun þrátt fyrir mótmæli í fjölskyldunni. Hef ég aldrei séð eftir þeirri ákvörðun minni og vann sem kennari á hinum ýmsu aldursstigum í yfir 40 ár. Ég naut þess að vinna með börnum og fannst alltaf gaman í vinnunni.

Ég hef verið upptekin af andlegum málefnum og hef lesið mikið og var sjálfsrækt þar líka ofarlega á listanum frá því að ég var ung. Árið 2003 ákvað ég að losa um ræturnar hér á Íslandi og flutti mig og mitt hafurtask til Noregs. Þar fékk ég vinnu á leikskóla og vann því með yngstu kynslóðina sem gaf mér mikið, að sjá þau þroskast og taka sín fyrstu skref inn í lífið var ómetanlegt. Þá ákvað ég líka að fara í tveggja ára háskólanám og útskrifaðist sem Gestalt þerapisti árið 2008. Í því námi fór fram mikil sjálfsvinna ásamt því að vinna með fólk. Á þessum tíma gekk ýmislegt á í íslensku þjóðfélagi sem varð til þess að ég lengdi veru mína í Noregi um átta ár. Komin heim til Íslands árið 2016 fór ég síðan að kenna í grunnskóla aftur.

Á Covid árunum þegar allt var meira og minna lokað sótti ég ýmis námskeið á netinu. t.d Engla og orkusteina námskeið Kyle Grey og var í englaskóla Claire Stone í tvö ár, ásamt því að vera áskrifandi á síðum Rebeccu Campbell.

Fljótlega eftir heimkomu kynnist ég síðan Ölmu í gegnum hugleiðslur í náttúrunni og þá var eins og nýr heimur opnaðist fyrir mér. Ég fann að þarna var eitthvað sem hafði blundað í mér og þurfti að hlúa að og næra. Þarna fann ég hversu mikil náttúruvera ég er og hversu sterk tengsl mín við aðrar náttúruverur er sterk .

Og nú fór boltinn að rúlla því 2021 mér var boðið að taka þátt í prufuhópi þeirra vinkvennanna Ölmu og Hrabbýar fyrir námskeiðið Þín persónulega umbreyting. Yndislegur hópur kom þarna saman til að kynnast sjálfum sér og öðrum betur. Eftir það sótti ég námskeiðin Engl Reiki 1 og 2 og síðar 3 og 4.

Síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt og er hér ég komin, farin að vinna í teymi Starcodes skólans sem samfélagsstjóri Hjartaakursins. Mér finnst ég vera farin að vinna í mínum eigin Hogwartskóla og hlakka mikið til næstu ára í því nærandi og gefandi umhverfi.

Begga er samfélagsstjóri Hjartaakursins

Þurý er leiðsögukona á námskeiðinu Þín persónulega umbreyting

Þurý Gísla

Ég hef verið að vinna í sjálfri mér að einhverju marki í 6-8 ár og hefur eitt leitt af öðru. Í hvert skipti sem ég var leidd á nýjar brautir í minni andlegu vegferð, var ekkert annað að gera en að hrista upp í sjálfinu, fara út úr þægindarammanum og stökkva á vagninn. 

Ég hef fundið neistann minn, tilganginn minn og sjálfa mig með því að treysta á Alheiminn, að hann komi til mín með það sem mér er ætlað í þessari jarðvist, lært að sleppa tökunum og vera opin fyrir því sem kemur til mín. 

Ég brenn fyrir því að fá að fylgjast með öðrum feta sinn veg í átt að sínum sannleika og það hef ég svo sannarlega fengið að sjá á minni vegferð með Starcodes Academy bæði sem þátttakandi í námskeiðum og svo leiðsögukona í námskeiðinu Þín persónulega umbreyting.  

Að auki rek ég mitt eigið fyrirtæki Líf Óm, sem er með meðferðir í lífsveiflutækni, ásamt því að bjóða upp á Engla Reiki heilun og selja jarðtengingavörur. Þetta er mín nálgun í dag til að vinna með heildrænar leiðir með áherslu á að hjálpa fólki að viðhalda og bæta heilsu sína á líkama og sál. 

Ég er afar þakklát manneskja fyrir mína vegferð, ég er að læra alla daga og uppfæra sjálfa mig, því lærdómurinn er lífæðin okkar og fylgir okkur svo lengi sem við lifum.  Mér efst í huga þakklæti til minna leiðbeinenda, samferðafólks og skjólstæðinga fyrir hvatningu, traust og kærleika sem ég hef fundið fyrir minni vegferð. 

 Finndu þína leið og stökktu á vagninn þinn!  

Guðrún Birna

Verkefni lífsins eru mörg og misjöfn hjá öllum einstaklingum, ég á mína sögu af verkefnum sem hafa leitt mig á þann stað sem ég er á í dag. Eitt stórt verkefni fékk ég í fangið í október 2021 þegar taugakerfið mitt hrundi eftir margra ára vanhirðu, virðið mitt og sjálf var svo lágt að ég orkaði ekki neitt. Hugsanir, líðan og dags daglegar athafnir voru einfaldlega hvergi og úti um allt.

Ég er þakklát fyrir öll mín verkefni, stór og smá, því ég væri einfaldlega ekki á þeim stað sem ég er á í dag, ef ekki væri fyrir þau. Lærdómur, þroski, heilsa og fegurð eru stór gildi sem ég mun halda, svo lengi sem ég get í lífinu. Ég hef skapað mér tól og verkfæri til að styrkja taugakerfið, hef virðið mitt í botni með því að setja sálfa mig í forgang með heilbrigðum mörkum og ég elska sjálfa mig skilyrðislaust.

Með því að stíga út fyrir þægindarammann hefur mér tekist ansi margt. Ég hef fjárfest í sjálfinu mínu með setu á námskeiðum, lesið fjöldann allan af bókum og fyrir mig eru það bestu fjárfestingarnar. Að styrkja mína manneskjusýn á minni vegferð til þroska í öllum orkulíkömum, er mér afar kært.

Ég lauk níu mánaða ferðalagi í mars 2023 sem Andlegur einkaþjálfari, ég kláraði Engla Reiki 1&2 í nóvember 2023 hjá Starcodes skólanum, kláraði níu mánaða ferðalag í maí 2024 hjá Starcodes skólanum sem heitir Þín persónulega umbreyting og kláraði meistarastig Engla Reiki 3og4 í ágúst 2024. Framundan hjá mér er svo framhald af ÞPU í október 2024 sem heitir Lifðu þinn tilgang og eru áætluð lok þess í febrúar 2025. Umbreytingin er stórkostleg.

Starcodes skólinn óskaði eftir nærveru minni í starfi og er ég einstaklega þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og að fá að vera hluti af teyminu. Þannig get ég enn frekar haldið áfram á minni andlegu vegferð með ljósverum og kærleika allt í kringum mig. Ég er grunnskólakennari í akademíska grunninum með viðbótardiplómu í Starfstengdri Leiðsögn en fyrst og fremst kærleiksrík ljósvera sem vill láta gott af sér leiða.

Guðrún Birna heldur utan um veru Starcodes skólans á samfélagsmiðlum

Oddfreyja er heilari á námskeiðum skólans auk þess að sjá um bókhald

Oddfreyja

Ég ólst upp í sveit, hef starfað margvísleg störf um ævina og staldraði lengst við í 18 ár, en ég var alltaf leitandi að einhverju sem hjálpar fólki að líða betur og vaxa andlega. Í raun má segja að ég hafi viljað veita öðrum það sem mig vantaði sjálfa, sem var heilun. 

Ég hef því lært ýmislegt sem hjálpar mér að gera einmitt það eins og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, reiki, dáleiðslu, fyrrilífa dáleiðslu og Engla reiki. Síðast en ekki síst fór ég í Starcodes Academy skólann á námskeiðið Þín persónulega umbreyting og fann fljótlega hvað það gerði mikið fyrir mig og bætti mína vinnu í heilun og dáleiðslu mikið.

Ég var því auðmjúk, þakklát og ótrúlega spennt þegar mér var boðið starf hjá Starcodes Academy og það var aldrei um annað að ræða en að segja já við því, en innan skólans sé ég m.a. um heilun fyrir nemendur á námskeiðunum Þín persónulega umbreyting og Lifðu þinn tilgang ásamt því að vinna í bókhaldi. Það er ástæðan fyrir því að ég er hér og hlakka til að fá að vaxa á nýjum vinnustað með frábærum samstarfskonum sem stefna allar að því að gera heiminn að minnsta kosti aðeins betri stað.

Guðný Guðmunds

Ég hef frá unga aldri glímt við mikla vanlíðan og kvíða og var lengi vel leitandi, en þegar ég var 25 ára gömul byrjaði ég sjálfsrækt mína af fullum krafti. Mér fannst lausnirnar sem ég var að leita að ekki vera að finna í heilbrigðiskerfinu, sem varð til þess að ég leiddist fljótt út á andlegar brautir, en ég byrjaði á þeim tímapunkti í ráðgjöf hjá sálmeðferðaraðila og fór einnig að mæta reglulega í heilun.

Þetta sama ár heimsótti ég einnig miðil sem mælti með því að ég myndi prufa að fara á námskeið í lestri tarotspila. Ég sótti því slíkt námskeið hjá Heilunarskólanum og tók í framhaldinu margvísleg námskeið þar, til að mynda í draumráðningu, heilun og miðlun, auk þess sem ég lauk fyrsta, öðru og þriðja stiginu í Reiki heilun.

Í gegnum tíðina hef ég verið þátttakandi í ýmiskonar hugleiðslu- og þróunarhópum og lærði t.a.m. hugleiðslu hjá Hjartastöðinni. Haustið 2022 útskrifaðist ég úr þriggja ára námi í sjamanisma hjá Patricia WhiteBuffalo og ári síðar lauk ég námskeiðinu Þín persónulega umbreyting hjá Starcodes Academy, auk þess sem ég tók þar Engla Reiki 1&2 og í framhaldinu 3&4.

Ég hef unnið mikið í sjálfri mér og veit manna best hversu mikilvægt það er að vinna úr þeim erfiðleikum og áföllum sem maður verður fyrir í lífinu. Á þessu tímabili hef ég jafnframt lært margt og mikið um sjálfa mig og andleg málefni en ég er ákveðin í því að halda áfram að þroska sjálfa mig, svo lengi sem ég lifi.

Guðný svarar fyrirspurnum og setur inn efni á vefsíðu skólans