Að fara í Starcodes skólann er eins og að eignast nýja fjölskyldu. Á námskeiðum skólans bindast þátttakendur í mörgum tilfellum sterkum böndum sem styrkjast og eflast í gegnum námskeiðin og eru þau bönd einhvernveginn órjúfanleg.
Sjálf hef ég farið í gegnum nokkur námskeið á vegum Starkodes skólans og hef tengst nýjum sálum, systrum og bræðrum órjúfanlegum böndum. Það er alltaf gaman að hittast, eiga trúnaðarsamtal, gleðistund, fara út að leika, lesa í spil, tromma, spila á hljóðfæri, spá í lífið og tilveruna, andleg mál og hvernig við stígum sterk inn og sameinum þau okkar daglega lífi.
Fyrir skemmstu fórum við sjö Starcodes systur saman til Akureyrar í helgarferð. Tilgangurinn var að heimsækja þá áttundu sem býr í Eyjafirði og eiga innihaldsríka og skemmtilega helgi saman. Við pökkuðum í bílana og brunuðum af stað seinnipart á fimmtudegi í fallegu veðri og léttar í lund, spenntar fyrir helginni og samverunni framundan.
Í svona samveru eins og þessa helgi á Akureyri, þá er eins og allir fái það sem þeir þurfa, svör, hvatningu, huggun, samkennd, áhuga. Það er svo gott að bara vera, leyfa flæðinu að leiða okkur þangað sem við þurfum á að halda og þurfa ekki að rembast neitt.
Systirin í Eyjafirði var að sjálfsögðu heimsótt og við vorum spenntar að kíkja í dótaherbergið hennar, sem reyndist vera fullt af allskonar hljóðfærum; gongi, flautum, söngskálum, trommum, bjöllum og og og …… þvílíkur ævintýraheimur. Enn dásamlegara var að við höfðum verið að ræða mikið um orkuna, hvernig við hækkum tíðnina okkar og hvernig orkan hefur áhrif á líðan okkar. Þarna vorum við sannarlega komnar í lukkupottinn og þegar við höfðum allar prófað og fundið hljóðfæri sem við tengdum við, var sest í hring og bara spilað í flæði
Þetta vakti upp barnið í okkur og hvað það er virkilega gaman að leika saman. Við sem fullorðið fólk erum ekki mikið í því að leika okkur á þennan hátt og vera í flæðinu. Gleðin og kátínan, vellíðanin og var svo mikil að við ákváðum þetta væri fyrsta æfing í nýju hljómsveitinni okkar
Flæðið hélt áfram hjá Siggu Sólarljósi, þar sem hún tók á móti okkur með sínu geislandi brosi og léttleika. Sigga fór með okkur að steinahring sem var gerður og virkjaður í landi fjölskyldu hennar fyrir ca 10 árum síðan og er einn af fimm sambærilegum hringjum á landinu. Við tengdum okkur við hringinn og heiðruðum áttir, vætti, Móður Jörð og aðrar ljósverur. Mikil orka og ljós í fullkomnu flæði
Sigga bauð okkur inn úr kuldanum og áfram hélt flæðið, nú inná við, inn í tilveru sálarinnar okkar. Serimóníu kakó og spil á loftinu hjá Siggu, mikil dulúð og viska sem losnaði úr læðingi þar.
Ýmislegt var rætt og upp kom spurning, hvernig stoppar maður stríð og við sammældumst um að með því að hlúa að eigin kærleika og ljósi og senda út í kosmósið með samkennd og umhyggju, gerðum við mest gagn og lifa eftir því í okkar daglega lífi. Kærleikur, ljós og samkennd.
Laugardeginum vörðum við á Akureyri sem er dásamlegur bær þar sem allskonar er í gangi. Ívar Þórhalls tók á móti okkur í Heilsuhofinu þar sem við áttum dásemdar morgunstund með smá yoga, hugleiðslu og tónheilun
Heimurinn er lítill og það sannaðist þegar undirrituð var í Guatemala fyrr á þessu ári, í litlum bæ að tala ensku við vinkonur. Þá vindur ungur maður sér að mér og spyr hvað Íslendingur sér að gera á þessum slóðum? Já, andlitið datt af mér! Hvernig vissi þessi ungi maður að ég var íslensk? Jú hvernig ég talaði enskuna, sagði hann þegar ég hváði
Nú var þessi sami ungi maður á Akureyri með tónleika í Akureyrarkirkju og auðvitað fóru þessar konur að sunnan í kirkjuna á dásamlega tónleika með Stefáni Elí, ljúf tónlist og textar beint frá hjarta listamannsins flæddu inn í hjörtu tónleikagesta.
Þessi ferð og samvera styrkti vináttuna, lífskraftinn og flæðið í hópnum svo sannarlega.
Allt er eins og það á að vera segjum við í þessum hóp svo oft og það er bara þannig
Takk Starcodes Academy fyrir að leiða okkur saman
Kærleikur og ljós
Þurý Gísla
Við hlökkum til að tengjast ykkur í gegnum samfélagsmiðlana okkar Facebook og Instagram – @starcodesisl – @starcodesacademy – @orkusteinar og á YouTube.
Sjáumst þar!