Um okkur
Stofnendur Starcodes Academy
Sagan okkar
Um Hrabbý
Ég er fædd árið 1978 og var svo heppin að fá að alast að mestu leyti upp í sveit, því ég var afar heilluð af náttúrunni og öllum þeim ólíku tegundum af orku sem ég skynjaði í henni. Mér fannst ég alltaf tilheyra Jörðinni eða landinu okkar en gat ekki með nokkru móti útskýrt þá tilfinningu, hvorki fyrir sjálfri mér né öðrum. Hvað þá að ég gæti útskýrt þessa yfirþyrmandi vissu sem ég hafði um að tilgangur minn væri á einhvern hátt að bjarga heiminum. Það var stór uppgötvun fyrir næmt barn og kvíðavaldandi þar sem ég skynjaði mikilvægið en skildi ekki tilfinninguna.
Foreldrar mínir ráku ferðaþjónustu og ólst ég upp við að taka virkan þátt í henni frá 12 ára aldri. Það kom þess vegna engum á óvart þegar ég ákvað að fara í háskólanám í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands. Síðar bætti ég svo við mig kennsluréttindanámi líka. Ég sérhæfði mig í sjálfbærni og svæðisbundinni þróun ferðaþjónustu en undirliggjandi var alltaf þessi sterka sýn mín að bera virðingu fyrir og vernda náttúruna sem við unnum með. Ást mín til Móður Jarðar er afar sterk og ég finn mikla gleði og lífsfyllingu við að hjálpa henni að heilast og vaxa.
Í kringum árið 2006 fór andlega hliðin mín að kalla meira og meira á mig svo ég skráði mig í andlegan þróunarhóp. Þar opnuðust flóðgáttirnar og ég fann að ég var komin heim. Síðan þá hef ég kynnt mér margar ólíkar hliðar andlegra mála og sótt ýmis námskeið s.s. í heilun, lestri spila, miðlun, andlegri list, notkun kristalla, nýtingu jurta, shamanisma og svo margt margt fleira. Þrátt fyrir mikinn áhuga var andlegi hlutinn minn alltaf á hliðarlínunni á meðan að ég lifði alvöru lífinu mínu sem verkefnastjóri innan ferðaþjónustunnar og kennari innan hins hefðbundna skólakerfis, gerandi alla hlutina sem ég hélt að ég ætti að vera að gera. Það var samt eitthvað mikið sem vantaði því ég var ekki að lifa tilganginn minn.
Þetta misræmi varð til þess að ég upplifði alvarlega lífskulnun árið 2019 sem tók mig næstum þrjú ár að vinna mig út úr. Heilunarferlið var langt og oft erfitt á köflum. Það var ekki fyrr en ég hafði horfst í augu við hversu langt ég var komin frá tilganginum mínum og hóf vinnuna við Starcodes Academy að lífsneistinn styrktist og ég fann aftur leiðina til mín. Núna skil ég algjörlega af hverju ég náði mér í alla þessu reynslu sem verkefnastjóri og kennari, það var allt undirbúningur fyrir þetta stóra verkefni. Þetta er ástríða mín og tilgangur og ég er svo ótrúlega lánsöm að vera treyst fyrir þessu stóra verkefni sem Metatron erkiengill færði okkur Ölmu.
Um Ölmu
Ég er svo heppin að vera móðir dásamlegrar stúlku sem er mjög gömul sál og hefur átt mörgum lífum með mér hér á Jörðinni. Við eigum hund og búum í Kópavoginum.
Ég er Engla Reiki meistari og kennari og hef síðustu ár einbeitt mér að því að kenna hugleiðslu, heilun og önnur sjálfseflandi námskeið. Í mínu fyra lífi vann ég við verkefna- og breytingastjórnun í næstum 20 ár og leiddi að mestu leyti upplýsingatækniverkefni. Síðan ég byrjaði í háskóla 1998 hef ég unnið í alþjóðlegu umhverfi og hef leitt og kennt fjölda andlegra, viðskipta og persónulegra þróunarnámskeiða á þeim tíma. Ég er með viðskiptafræðigráðu og MBA frá Solvay Brussels School of Economics & Management og bjó í Brussel í tæp tvö ár.
Persónulegur ljóskóði Ölmu
Mitt andlega ferðalag hófst í kringum 2000 þegar ég fór fyrst til heilara og eftir að ég kláraði MBA námið 2006 hellti ég mér út í hinn andlega heim og lærði allt sem ég gat um miðlun, heilun, kristalla, leiðsagnar- og tarotspil, náttúruverur og fleira. Fáum árum síðar var ég farin að bjóða upp á lestra og heilun. Ég hef sótt námskeið hjá íslenskum og erlendum kennurum í rúm 15 ár en mínir stærstu kennarar hafa verið mín eigin heilunarvegferð, fólkið í kringum mig og viðskiptavinir mínir.
Ég hafði vitað lengi að ég ætti að vinna með andanum og fólki en það var aldrei rétti tíminn til að skipta úr fyrirtækjaheiminum til að verða frumkvöðull. Ég vissi hins vegar ekki nákvæmlega hvað ég ætti að vinna með. Eftir lífskulnun 2018 fór ég að starfa við andleg mál sem var dásamlegt en ég vissi að ég var í raun og veru að lifa minn tilgang hér á Jörðinni þegar Starcodes Academy fæddist 2020.
Ég elska að vinna með englum, gyðjum, meisturum, drekum, einhyrningum, náttúruverum og öðrum ljósverum. Móðir Jörð og náttúra hennar er mér mjög mikilvæg og ég elska að styðja Jörðina við að hreinsa og heila sár hennar og þiggja hennar yndislega fjölbreyttu orku til að heila og næra sjálfa mig.