Samfélagskerfin okkar

Hvað er í gangi í orkunni núna? Og hvernig hefur það áhrif á kerfin okkar sem sum hver virðast komin í þrot?

Við treystum flest á hin ýmsu kerfi sem samfélögin hafa skapað í daglegu lífi svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi, stjórnkerfi og fleiri. Við sem samfélag þurfum ákveðið utanumhald, ákveðinn ramma til að vinna eftir svo að samfélagið virki nokkurn veginn þannig að það þjóni meirihlutanum. Einnig höfum við skilgreint ákveðinn stuðning sem þarf til að sem flestum geti liðið vel innan samfélagsins.

En þá komum við að því hver skapar kerfin og hverjum þjóna þau?

Kerfi samfélagsins eru ekki annað en það sem við, samfélagið sköpum. VIÐ erum samfélagið. Samfélagið er ekki sjálfstæð eining sem við stöndum utan eða höfum engin áhrif á. Það er gott að minna sig á reglulega að hver og einn einstaklingur er hluti af heildinni og að við þurfum að taka þátt í að skapa það samfélag sem við viljum lifa í. Um leið eiga kerfin að þjóna okkur þannig að við getum sótt þann stuðning sem á þarf að halda.

En af hverju er það þá ekki þannig í dag að kerfin þjóni stærstum hluta samfélagsins?

Við höfum tekið eftir þeirri tilhneigingu að einstaklingar tali um kerfin eins og þau séu bara á forræði annarra. Að við stöndum utan þeirra og getum ekki haft áhrif á þau. 

  • Hvað höfum við sem einstaklingar lagt til málanna inn í kerfin?
  • Erum við með lausnir sem við höfum bent á?
  • Eða erum við meira að skoða götin í kerfunum?
  • Gæti verið að ef við legðum saman og einbeittum okkur að lausnum að við gætum vakið athygli á þeim góðu hlutum sem við vitum um og gætu þjónað mun fleirum?
  • Ef við legðum áherslu á samstöðu, sameiginleg gildi og samfélagið, væri þá orðinn til betri grundvöllur til að leita lausna en er í dag? 
  • Væri kannski gott að halda þjóðfundi reglulega til að skoða málin? 

Í þeirri orku sem við erum stödd í dag, þar sem tíðnin hækkar stöðugt og stjörnurnar veita okkur rými til að velta við hverjum steininum á fætur öðrum, þá ýtir orkan hressilega við þeim sem eru vel fastir í sýndarveruleikanum sem þriðja víddin er. Við erum stödd á tíma þar sem við erum ekki aðeins að skoða okkur og vinna innri vinnuna heldur er titringur allt í kringum okkur sem hefur alltaf áhrif, það er enginn undanskilinn því að finna fyrir orkunni.

Við og um leið samfélagið okkar, stöndum frammi fyrir því að við lifum ekki sjálfbæru lífi á Jörðinni og kerfin okkar þjóna ekki eins og til var ætlast. Það er því ljóst að gríðarlegra breytinga er þörf. Breytingar á tíðni kalla á breytingar á okkur sem einstaklingum, um leið verða breytingar innan samfélaga og þá endum við á að þurfa að breyta kerfunum sem voru hönnuð til að styðja við okkur í annarri orku en nú er.

Það er ekki bara þannig að það þurfi að skapa meiri peninga til að bæta við meira svona eða hinsegin, ef kerfið er ekki að þjóna stærstum hluta samfélagsins þá hlýtur kerfið sjálft að þurfa að breytast og peningar einir og sér gera það ekki. Peningar eru bara ein tegund orku, kannski þarf annars konar orku inn í kerfin til að þau virki.

Við munum birta nokkra pistla um kerfin í samfélaginu okkar á næstu dögum, velta upp spurningum og skoða málin frá ýmsum sjónarhornum.

Endilega fylgstu með okkur á samfélagsmiðlunum okkar Facebook, Instagram og YouTube – sjáumst þar!

Share This Post