Einn af mínum stærstu sigrum var að koma út úr andlega skápnum. Á ég ekki einhverja skápfélaga sem þrá að komast út? Sem eru þreytt á að að kúldrast þar, hrædd um hvað fólk segir eða gerir ef þið opinberið ykkur. Þennan pistil skrifaði ég fyrir nokkrum árum og hann var risastórt skref fyrir mig. Fékk ég viðbrögð? Já heldur betur! Voru þau hræðileg? Nei, alls ekki. Það kom mér verulega á óvart hversu frábær viðbrögðin voru og ég var virkilega þakklát að heyra að mitt hugrekki hefði ýtt við öðrum að opinbera aðeins stærri hluta af sér. Til innblásturs má lesa pistilinn hér fyrir neðan. Verum við sjálf, nákvæmlega eins og við erum! Kærleiksknús, Hrabbý.
Mér var gefin gjöf. Gjöf sem ég hef alla tíð átt í miklum erfiðleikum með að deila með fólki. Stundum hef ég verið hrædd við gjöfina, þá sérstaklega ábyrgðina sem fylgir henni en líka við það hvaða skoðun fólk hefur á mér ef það veit af henni.
Gjöfin er skyggnigáfa og heilunarkraftur. Álfar, tröll, huldufólk, gyðjur, guðir, meistarar og drekar eru kannski óvenjulegir félagar en engu að síður raunverulegir fyrir mér á svo margan hátt. Þetta eru vinir mínir og samstarfsfélagar í ýmsum verkefnum sem ég vinn með öðru fólki eins og mér. Hljómar þetta eins og vísindaskáldsaga? Já! Lífið er bara svo miklu meira en það sem við getum séð með berum augum.
Það eru svo margar leiðir til að sjá og skynja sem við erum búin að loka eða kæfa í stanslausum hraða hversdagsleikans. Við erum svo dugleg að deyfa okkur nefnilega, svo dugleg að vera í nánast engu sambandi við okkur sjálf og hvernig okkur líður með lífið yfirleitt.
Ég er búin að fara í gegnum mikinn skóla síðustu ár með sjálfa mig eftir að hafa náð mér í afar öfluga kulnun sem hleypti mér ekki áfram í neinu öðru en að lækna sárin mín og læra að vera ég sjálf. Læra að leyfa kraftinum mínum að koma fram í sköpun og vera ekki feimin við að sýna hver ég er. Ég kemst ekki lengra fyrr en ég er búin að taka þetta skref.
Þessi færsla sem þú ert að lesa núna er risastórt skref fyrir mig og óttinn minn öskrar á mig að gera þetta ekki því ég veit ekki hvað gerist. Ég get ekki stjórnað því hvað fólk segir um mig og hvernig það lítur á mig eftir að hafa lesið þetta. Því segi ég: Halló heimur! Ég heiti Hrafnhildur, ég er skyggn.
Við hlökkum til að tengjast ykkur í gegnum samfélagsmiðlana okkar Facebook og Instagram – @starcodesisl – @starcodesacademy – @orkusteinar og á YouTube.
Sjáumst þar!